Söfnunarstefna

 

Söfnunarstefna Minjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti

Saga, aðbúnaður og starfsemi
Saga safnsins
Fyrsti vísir að safninu eru þrír hlutir sem Egill eignast barn að aldri: netanál, tóbaksfjöl og tóbaksjárn, varð upphafið að byggðasafni Vestur-Barðastrandarsýslu. Það varð að samkomulagi að Egill Ólafsson gaf einkasafn sitt til V-Barðastrandar-sýslu og skyldi það verða uppistaðan í byggðasafni sýslunnar. Safnið var vígt 22. júní 1983 af þáverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur.
 
Sýningar eru eftirfarandi:
Saga byggðalagsins í formi munasýningu
Sýning um „Björgunarafrekið við Látrabjarg“
Sýning um kirkjusögu svæðisins
Sýning um Gísla á Uppsölum
Sumarsýningar
 
Fastir atburðir á Minjasafni Egils Ólafssonar eru:
Íslenski Safnadagurinn
Sumaruppákomur í formi fyrirlestra og afþreyingu eru nokkrar yfir sumarmánuðina.
 
Starfsemi safnsins felst í: 
- Söfnun, móttöku og frumskráningu muna í aðfangabækur
- Tölvuskráningu safnmuna í viðurkenndan gagnagrunn 
- Varðveislu, forvörslu og viðgerðir 
- Miðlun, hönnun og uppsetningu sýninga.
- Móttöku og leiðsögn gesta 
- Heimildaöflun, rannsóknir á safnmunum og sögu þeirra  
- Gerð kynningarefnis (bæklingar-heimasíða-margmiðlun)
- Viðhald safnhúsa
- Fjármögnun rekstrar og nýframkvæmda 
- Safnið er opið almenningi, ferðahópum og skólahópum 3-5 mánuði á ári. Og eftir samkomulagi utan þess tíma 
- Safnið starfar eftir starfsáætlun til 4 ára í senn. 
- Safnið starfar eftir söfnunarstefnu.
Áhersla er lögð á samvinnu við aðrar stofnanir s.s. önnur söfn. Þetta auðgar 
starfsemi safnsins og eflir það út á við.
 
 
Húsnæði
Safnahúsið á Hnjóti samanstendur af tveimur sýningarsölum auk kaffiteríu. Eldri hluti safnsins var opnaður þegar safnið var vígt þann 22. júní 1983. Þar er sýning um sjósókn, landbúnað, iðnað og daglegt líf á sunnanverðum Vestfjörðum og við norðanverðan Breiðafjörð, sett upp af Agli sjálfum. Nýrri hluti safnsins, var tekinn í notkun árið 2000. Þar er sýning um Björgunarafrekið við Látrabjarg 1947, munir frá Gísla á Uppsölum (Gísla Oktavíusi Gíslasyni) og kirkjugripir frá svæðinu. Fremsta rými í nýja safninu er notað undir sýningar sem stoppa styttra við. Lóð minjasafnsins hefur verið notuð sem sýningarsvæði m.a. fyrir þá muni sem ekki er nægt rými fyrir í geymslum safnsins. Geymsla safnsins er staðsett í Hvammsholti í Örlygshöfn en til stendur að finna nýtt geymsluhúsnæði
 
Söfnunarstefnan 
Markmið
Meginhlutverk safnsins er að safna, skrásetja, forverja, varðveita, rannsaka og kynna menningarsögulegar minjar byggðarinnar.
 
Söfnunarsvæði
Söfnunarsvæðið er Vestur-Barðastrandarsýsla og norðanverður Breiðafjörður. Þar sem skarast við söfnunarsvæði annarra safna skal hafa í heiðri siðareglur ICOM, alþjóðaráðs safna. Einnig að söfn virði söfnunarsvið og svæði hvers annars og öflun safngripa verði í sumum tilvikum að vera í samráði við önnur söfn. 
 
Tímabil söfnunar 
Flestir safngripir eru frá 19. öld og fram á miðja 20. öld. Ekki er áætlað að safna fjöldaframleiddum munum sem framleiddir eru eftir miðja 20. öld, heldur að leggja áherslu á gamla tímann.
 
Söfnunarsvið 
Minjasafnið leggur áherslu á söfnun muna úr gamla bændasamfélaginu og allt það sem tengist lífi fólks til sjós og lands á þeim tíma sem skilgreindur er og hefur skírskotun til lífshátta svæðisins. 
 
Helstu söfnunarflokkar eru: 
• Landbúnaður safnað er heimildum um atvinnuhætti í landbúnaði, gömlum áhöldum og verkfærum 
• Sjávarnytjar safnað er heimildum um sjávarnytjar almennt og sérstaklega heimildum og áhöldum og verkfærum tengdum hlunnindanýtingu, safnið tekur ekki við bátum og veiðarfærum til viðbótar þeim sem nú þegar eru á safninu. Bent er á Bátasafn Breiðafjarðar.  
• Verslunarminjar safnað er heimildum og gripum tengdum verslun á svæðinu  
• Iðnaður Engu er safnað sem flokkast undir verksmiðjuframleiðslu. 
 • Heimilishald Áhersla er lögð á að safna heimilismunum og öllu sem varpar ljósi á aðbúnað í torfbæjum og í 20. aldar híbýlum.
• Híbýlahættir safnað er innanstokksmunum og heimildum um hús og húsagerðum svæðisins 
• Samgöngur Reiðtygi, klyfjareiðskapur, sleðar, skíði og skautar og aðrir gripir sem tengjast ferðalögum á landi fyrir véla- og bílaöld eru áhugaverðir fyrir safnið. Ekki er tekið við vélknúnum samgöngutækjum s.s. bífreiðum og bátum til viðbótar þeim sem nú þegar eru á safninu vísað er á önnur söfn.
• Félagssaga gripum og heimildum sem tengjast m.a. félagslífi, tónlist og skólahaldi 
• Kirkjugripir
• Fjölskylduhættir safnað er gripum sem varpa ljósi á heimilishald og fjölskylduvenjur.
• Stjórnsýsla gamla tímans s.s. heimildir og gripir. 
• Myndlist sem safninu áskotnast ef listamaðurinn er frá svæðinu eða efni listaverksins tengist safnasvæðinu eða safngripum.
• Ljósmyndir þeim sem tengjast beint viðfangsefni safnsins 
• Lækningar munir sem tengjast hefðbundnum og óhefðbundnum lækningum á svæðinu fyrr á tímum og heimildir og gripir ljósmæðra
• Skjöl þeim sem tengjast beint viðfangsefni safnsins 
• Fornleifar. Áhersla er lögð á að nálgast upplýsingar um fornleifar og mannvistarleifar en jarðfundnir munir eldri en 100 ára eru ekki vistaðir á safninu heldur á Þjóðminjasafni Íslands
 
Aðferðir við söfnun
Safnið stendur fyrir virkri söfnunarstefnu, með tilliti til lagalegs hlutverks safnsins samkvæmt safnalögum. 
Safnið mun hvetja almenning til að afhenda muni og heimildir til safnsins til varðveislu fyrir komandi kynslóðir, sem eðlilegt er að varðveitist þar.
Safnið mun ekki hvetja almenning til að afhenta ættargripi eða aðra muni sem hafa persónulegt gildi fyrir það, jafnvel þótt munirnir eða heimildirnar uppfylli öll skilyrði söfnunarstefnunnar.
Sé safninu boðnir hlutir til varðveislu utan söfnunarsviðs eða söfnunarsvæðis til varðveislu skal meta það hverju sinni hvort við þeim verði tekið. Við mat á slíku skal gæta að; menningarlegu hlutverki gripsins, hvað fyrir er í safninu sama efnis.
Safnið tekur ekki við nokkrum hlut sem það getur ekki varðveitt á viðunandi hátt, né þeim hlutum sem kvaðir fylgja. 
 
Móttaka og skráning
Þegar tekið er við gripum eru þeir hreinsaðir og forskráður í aðfangabók safnsins.
Síðan er þeim pakkað og settir í geymslu þangað til þeir verða skráðir í gagnagrunninn Sarp sem er skráningarkerfi safnsins.
Grisjun
Grisjun á safnkosti Minjasafns Egils Ólafssonar fer fram samkvæmt safnalögum og Siðareglum ICOM. Grisjun getur átt sér stað af eftirfarandi ástæðum:
Hluturinn þykir ekki hafa menningarlegt gildi.
Vegna skemmda er haft geta skaðleg áhrif á aðra hluti í umsjón safnsins.
Hluturinn er falsaður eða rangt greindur.
Safnið á þegar mörg eintök af hlutnum. 
Við grisjun skal styðjast við skriflegt mat a.m.k. þriggja aðila, eins innan safnsins og tveggja aðila utan þess er sérþekkingu hafa á söfnunarsviðinu.
Tillögu um grisjun skal bera upp á stjórnarfundum safnsins og getur stjórnin ein tekið ákvörðun um hana sem er bindandi fyrir safnið.
 
Millisafnalán
Safnið getur lánað muni til sýninga eða rannsókna til annarra safna með 
samningum sem báðir aðilar samþykkja. Þar skal koma fram ákvæði um lánstíma 
og hvernig meðhöndla og tryggja eigi munina.
 
 

Staðsetning

Minjasafn Egils Ólafssonar, Hnjóti, Örlygshöfn, Sími: 4561511, Netfang: museum@hnjotur.is